154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

sumarlokun meðferðardeildar Stuðla .

[15:38]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og er algjörlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess úrræðis sem fíknimeðferð er fyrir börn og ungmenni. Barna- og fjölskyldustofa hefur á undanförnum árum, eða frá því að ég tók við, sinnt því af miklum myndarskap, bæði með rekstri Stuðla en eins með ýmsum öðrum úrræðum, bæði með rekstri einstakra heimila en líka með úrræðum eins og MST sem hafa verið efld til muna á síðustu árum. Það er þannig þegar kemur að heimili eins og Stuðlum að ef það liggur fyrir, og það er ekki komið erindi um það inn til ráðuneytisins, að til standi að loka því heimili í sumar þá munum við að sjálfsögðu vinna það með okkar undirstofnun sem er Barna- og fjölskyldustofa vegna þess að jafn mikilvæg úrræði og Stuðlar og önnur slík úrræði geta ekki farið í sumarfrí. Ef þar skortir fjármagn þá munum við tryggja það. Við erum nýlega búin að auka fjármagn inn til Barna- og fjölskyldustofu til að mæta mjög þungum vanda barna sem eru vistuð núna á Stuðlum, ekki vegna fíknimeðferðar heldur vegna gæsluvarðhaldsúrskurða. Þannig að formlega hefur það ekki komið inn á mitt borð að það standi til að loka Stuðlum í sumar en sé það raunin mun ég funda með forstjóra Barna- og fjölskyldustofu og ég mun funda með forsvarsfólki Stuðla og finna leiðir til þess að tryggja þessum börnum þjónustu.